Tag Archive | ráðherra

Rökleiðslafrá venjulegum serbneskum uxa

Mikið af undrum gerast í þessum heimi og landið okkar er, eins og margir segja, yfirfullt af undrum í þeim mæli að undur eru ekki lengur undur. Hér er fólk í mjög háum stöðum sem hugsar alls ekki, og til bóta, eða kannski af einhverjum öðrum ástæðum, fór venjulegur uxi, sem er ekkert frábrugðinn öðrum serbneskum uxum, að hugsa. Guð má vita hvað gerðist sem varð til þess að þetta hugvitssama dýr vogaði sér að taka upp svo brjálæðislega viðleitni, sérstaklega þar sem það hafði verið sannað að í Serbíu gæti þessi óheppilega iðja aðeins valdið manni vanvirðingu. Við skulum þá segja að þessi vesalings djöfull, í öllum sínum barnaskap, vissi ekki einu sinni að þessi viðleitni er ekki hagkvæm í heimalandi hans, svo við munum ekki kenna honum neitt sérstakt borgaralegt hugrekki. En það er samt hulin ráðgáta hvers vegna uxi ætti að hugsa þar sem hann er ekki kjósandi, né ráðherra né sýslumaður, né hefur hann verið kjörinn varamaður á einhverju uxaþingi, eða jafnvel (ef hann hefur náð ákveðnum aldri) öldungadeildarþingmaður. Og hefði fátæku sálina einhvern tíma dreymt um að verða ráðherra í einhverju uxalandi, þá hefði hann átt að vita að þvert á móti ætti hann að æfa sig í því að hugsa sem minnst, eins og þessir ágætu ráðherrar í sumum hamingjusamari löndum, þótt okkar land er heldur ekki svo heppið í þessum efnum. Að lokum, hvers vegna ættum við að vera sama um hvers vegna uxi í Serbíu hefur tekið upp viðleitni sem fólkið hefur yfirgefið? Það gæti líka hafa gerst að hann byrjaði að hugsa eingöngu vegna náttúrulegs eðlis síns.

Svo, hvers konar uxi er það? Venjulegur uxi sem hefur, eins og dýrafræðin kennir okkur, höfuð, líkama og útlimi eins og allir aðrir uxar; hann dregur kerru, beitir á grasi, sleikir salt, smjattar og hneggjar. Hann heitir Gráni.

Svona fór hann að hugsa. Einn daginn setti húsbóndinn hann í ok og vinur hans, Svarti, hlóð nokkrum stolnum spýtum á kerruna og fór með þær í bæinn til að selja. Næstum strax þegar hann kom inn í bæinn, seldi hann spýturnar og óokaði Grána og félaga hans, krókaði keðjuna sem bindur þá við okið, kastaði balkansnotru fyrir framan þá og fór glaður inn í lítla krá til að hressa sig við með nokkrum drykkjum. Það var hátíð í gangi í bænum, þannig að þar gengu karlar, konur og börn um frá öllum áttum. Galonja (Svarti), sem var talinn frekar heimskur af öðrum uxum, horfði ekki á neitt, heldur henti hann sér í nestið sitt af fullri alvöru, borðaði sig fullann, hneggjaði dálítið af einskærri ánægju og lagðist svo niður, ljúfur, blundandi og íhugandi. Allt þetta fólk, sem átti leið framhjá, hafði engar áhyggjur af honum. Hann er bara að blunda og íhuga friðsamlega (það er leitt að hann er ekki manneskja, með allar þessar tilhneigingar fyrir háleitan feril). En Gráni gat ekki tekið einn einasta bita. Draumkennd augu hans og dapurlegi svipurinn á andliti hans sýndi við fyrstu sýn að hann var hugsuður, og ljúf, áhrifarík sál. Fólk, Serbar, gengur framhjá honum, stolt af sinni glæsilegu fortíð, nafni sínu, þjóð sinni og þetta stolt sýnir sig í strangri framkomu og skrefum þeirra. Gráni fylgdist með þessu öllu, og sál hans var allt í einu upptekin af sorg og sársauka vegna hins gífurlega óréttlætis, og hann gat ekki annað en látið undan svo sterkri, skyndilegri og kröftugri tilfinningu; hann hrökk við sorgmæddur, sársaukafullur, og tárin runnu í augu hans. Og í miklum sársauka sínum fór Gráni að hugsa:

– Af hverju eru húsbóndi minn og samlandar hans, Serbar, svona stoltir? Hvers vegna bera þeir höfuðið svona hátt og horfa á fólkið mitt með hrokafullu stolti og fyrirlitningu? Þeir eru stoltir af föðurlandi sínu, stoltir af því að miskunnsöm örlög hafi veitt þeim það að fæðast hér í Serbíu. Móðir mín fæddi mig líka hér í Serbíu og Serbía er ekki bara heimaland mitt heldur líka föður míns og forfeður mínir hafa, rétt eins og þeir, allir saman komið til þessara landa frá gamla slavneska heimalandinu. Og þó hefur enginn okkar uxanna verið stoltur af því, við vorum aðeins stoltir af því að geta dregið þyngri byrðar upp á við; enn þann dag í dag hefur uxi aldrei sagt við þýskan uxa: „Hvað vilt þú mér, ég er serbneskur uxi, heimaland mitt er hið stolta land Serbíu, allir forfeður mínir voru búnir að burðast hér og hér, í þessu landi eru grafir forfeðra minna. „Guð forði okkur frá því, við höfum aldrei verið stolt af þessu, aldrei hefur okkur dottið það í hug, og þeir eru jafnvel stoltir af því. Skrítið fólk!

Tekinn af þessum hugsunum hristi uxinn dapurlega höfuðið, bjalla á hálsi hans hringdi og okið brakaði. Svarti opnaði augun, horfði á vin sinn og sagði:

– Þarna ferðu aftur með þessa vitleysu þína! Borðaðu, fífl, fitaðu, sjáðu rifbeinin þín, þau standa öll út; ef gott væri að hugsa, hefðu menn ekki látið okkur uxunum það eftir. Enginn möguleiki aðvið hefðum verið svona heppin!

Gráni horfði á félaga sinn með vorkunn, sneri höfðinu frá honum og sökkti sér aftur í hugsanir sínar.

– Þeir eru stoltir af sinni glæsilegu fortíð. Þeir hafa sinn Kosovo-völl, orrustuna um Kosovo. Stórmál, hafa forfeður mínir ekki dregið kerrur með mat og vopnum í þá daga? Ef það væri ekki fyrir okkur hefði fólk þurft að gera það sjálft. Svo er það uppreisnin gegn Tyrkjunum. Stórkostleg, göfugviðleitni, en hver var þarna á þeim tíma? Voru það þessir hánefju vitleysingjar, sem gengu stoltir frammi fyrir mér eins og það væri þeirra gildi, sem vakti uppreisnina? Hér, tökum húsbónda minn sem dæmi. Hann er líka svo stoltur og montar sig af uppreisninni, sérstaklega með því að langafi hans fórst í frelsisstríðinu sem sannkölluð hetja. Og eru þetta gildi húsbónda míns? Langafi hans átti rétt á að vera stoltur, en ekki hann; Langafi hans dó svo húsbóndi minn, afkomandi hans, gæti verið frjáls. Hann er því frjáls og hvernig notar hann frelsi sitt? Hann stelur spýtum annarra, sest á kerruna og ég þarf að draga bæði hann og spýturnar á meðan hann sefur við tauminn. Nú hefur hann selt spýturnar, hann drekkur áfengi, gerir ekkert og er stoltur af sinni glæsilegu fortíð. Og hversu mörgum forfeðrum mínum hafði verið slátrað í uppreisninni til að fæða bardagamennina? Og drógu ekki forfeður mínir á þeim tíma vopn, fallbyssur, mat, skotfæri? Og samt erum við ekki stolt af gildum þeirra vegna þess að við höfum ekki breyst; við gerum enn skyldu okkar í dag, rétt eins og forfeður okkar gerðu, þolinmóðlega og samviskusamlega.

Þeir eru stoltir af þjáningum forfeðra sinna og af fimm hundruð ára þrælahaldi. Ættfólk mitt hefur þjáðst í gegnum tilveru sína og enn í dag þjáumst við og erum hneppt í þrældóm, en samt öskrum við ekki um það eins hátt og við getum. Þeir segja að Tyrkir hafi pyntað, slátrað og hengt þá; jæja, forfeðrum mínir var slátrað af bæði Serbum og Tyrkjum, og þeir steiktir og beyttir alls kyns pyntingum.

Þeir eru stoltir af trú sinni og trúa samt ekki á neitt. Hvernig er það mér og mínum mönnum að kenna að við getum ekki verið samþykkt meðal kristinna manna? Trúarbrögð þeirra segja þeim „þú skalt ekki stela“ og þar er húsbóndi minn að stela og drekka fyrir peningana sem hann fékk fyrir að stela. Trúarbrögð þeirra leiðbeina þeim um að elska nágrannann, en samt skaða þeir hvern annan. Fyrir þá er besti maðurinn, dæmi um dyggð, sá sem gerir engan skaða, og auðvitað dettur engum í hug að biðja einhvern um að gera eitthvað gott líka, fyrir utan að gera ekki skaða. Það er bara svona lág semdæmi þeirra um dyggð eru, ekki meira en hver ónýtur hlutur sem gerir ekki skaða.

Uxinn andvarpaði djúpt og andvarp hans lyfti rykinu af veginum.

– Svo – hélt uxinn áfram með sorgarhugsanir sínar – í þessu tilfelli, erum ég og frændur mínir ekki betri í þessu öllu en allir þeirra? Ég hef aldrei myrt neinn, ég hef aldrei rægt neinn, hef engu stolið, ekki rekið saklausan mann úr opinberri þjónustu, ekki hallað á ríkissjóð, ekki lýst yfir fölsku gjaldþroti, ég hef aldrei hlekkjað eða handtekið saklaust fólk, ég hef aldrei rægt vini mína, ég hef aldrei gengið gegn uxareglum mínum, ég hef ekki borið ranga vitnisburði, ég var aldrei utanríkisráðherra og gerði landinu aldrei mein, og ekki bara að ég geri ekki neitt illt, ég geri jafnvel þeim gott sem gera mér mein. Móðir mín fæddi mig og strax tóku vondir menn meira að segja mjólk móður minnar frá mér. Guð hefur að minnsta kosti skapað gras handa okkur uxum, en ekki fyrir mennina, og þó svipta þeir okkur því líka. Samt sem áður, fyrir utan allt þetta barð, drögum við kerrur manna, plægjum akrana þeirra og gefum þeim brauð. Og samt viðurkennir enginn kosti okkar sem við gerum fyrir móðurlandið…

– Eða taka föstu sem dæmi; jæja, fyrir menn, trúarbrögð segja mönnum að fasta á öllum hátíðardögum, og þó eru þeir ekki einu sinni tilbúnir til að þola þessa litlu föstu, meðan ég og fólkið mitt fastar allt okkar líf, allt frá því að við erum fyrst vanin af brjósti móður.

Uxinn lækkaði höfuðið eins og hann væri áhyggjufullur, lyfti því svo aftur, hnussaði reiðilega, og svo virtist sem eitthvað mikilvægt væri að koma aftur til hans, kvelja hann; Allt í einu sagði hann glaður:

– Ó, ég veit það núna, það hlýtur að vera það – og hann hélt áfram að hugsa, – það er það sem það er; þeir eru stoltir af frelsi sínu og borgaralegum réttindum. Ég þarf að huga að því alvarlega.

Og hann var að hugsa, hugsa, en gat ekki gert það út.

– Hver eru þessi réttindi þeirra? Ef lögreglan skipar þeim að kjósa, þá kjósa þeir og svona gætum við alveg eins sagt: „Fy-r-i-ir!“ Og ef þeim er ekki skipað það, þá þora þeir ekki að kjósa, eða jafnvel dunda sér við pólitík, alveg eins og við. Þeir verða líka fyrir barsmíðum í fangelsi, jafnvel þótt þeir séu algjörlega saklausir. Að minnsta kosti hneggjum við og veifum skottinu, og þeir hafa ekki einu sinni það litla borgaralega hugrekki.

Og á þeirri stundu kom húsbóndi hans út úr kránni. Hann var drukkinn, haltrandi, óljós augu, muldraði óskiljanleg orð, og gekk hikandi í átt að kerrunni.

– Sjáðu bara, hvernig notar þessi stolti afkomandi frelsið sem var unnið með blóði forfeðra sinna? Rétt, húsbóndi minn er handrukkari og þjófur, en hvernig nota hinir þetta frelsi? Bara til að iðka aðgerðarlausir og vera stoltur af fortíðinni og af gildum forfeðra sinna, þar sem þeir hafa jafnmikið framlag og ég. Og við uxarnir, við vorum eins duglegir og nytsamir verkamenn eins og forfeður okkar höfðu verið. Við erum uxar en getum samt verið stoltir af erfiðu starfi okkar og gildum í dag.

Uxinn andvarpaði djúpt og bjó hálsinn undir okið.

 

Í Belgrad, 1901.
Fyrir „Radoje Domanović“ verkefnið þýtt af Dagbjörtu Gísladóttir, 2022.